Hafðu samband: 520 4000 snerpa@snerpa.is

Keðjubréf

Hvað er að því að senda keðjubréf?

Keðjubréf eru póstsendingar, annaðhvort tölvupóstur eða venjuleg póstsending. Keðjubréf eru mjög óæskileg að mörgu leyti. Fyrir utan að eins og sést hefur í gegn um tíðina að keðjubréf sem er ætlað að margfalda fjárhag þeirra sem það senda áfram virka ekki sem slík, að þá eru þau fyrst og fremst sóun á tíma, og pappír eða bandvídd eftir því hvaða flutningsmiðill er notaður.

Af hverju ekki að senda keðjubréf?

Keðjubréf eru í mjög mörgum tilfellum til þess að sóa tíma og öðrum verðmætum en vissulega geta þau einnig valdið öðrum og verri afleiðingum en til stóð í upphafi. Frægt er dæmi um keðjubréf sem sent var um allan heim fyrir nokkrum árum og í því stóð að breskur drengur, Craig Shergold að nafni þjáðist af krabbameini í höfði og hans æðsta ósk væri að komast í heimsmetabók Guinness með því að eignast sem flest heillaóskakort. Craig er löngu kominn í heimsmetabókina og á nú yfir 35 milljón kort, miklu meira en hann kærir sig um. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að stöðva keðjubréfið, heldur það enn áfram og Craig, sem nú er læknaður af meini sínu á í verulegum vanda með póstinn sinn. Á tímabili bárust 300.000 kort á viku! Þeir sem vilja fræðast nánar um þessa sögu geta smellt hér.

Enn og aftur..!

Aldrei senda áfram hugsunarlaust tölvupóst sem þú ert beðin(n) um að áframsenda sem víðast. Tölvupóstur ferðast margfalt hraðar og sem keðjubréf breiðir hann margfalt örar úr sér heldur en venjulegur póstur.

Hér er nýlegt dæmi um sams konar keðjubréf (í september 2001) sem þó er sent í venjulegum pósti. Lesandinn er hvattur til að ímynda sér hvað það hefði getað farið víða sem tölvupóstur!

Snerpa fékk sent í pósti frá Póst- og fjarskiptastofnun (!) keðjubréf. Með bréfinu fylgdi þessi áskorun frá Rauða krossi Íslands: ,,Steve Detry er lítill drengur í Belgíu sem er haldinn ólæknandi krabbameini. Stærsta ósk hans er að komast í heimsmetabók Guinness fyrir að vera sá sem á flest nafnspjöld í heiminum (eitt pr. fyrirtæki)." ... o.s.frv. Einnig höfðu áframsent bréfið stofnanir og fyrirtæki eins og Samgönguráðuneytið, Landsbankinn, Eimskip og fleiri - hugsanlega yfir 8000 aðilar sbr. hér neðar!

Það er enginn vafi á að sá eða sú hjá Rauða krossinum sem þýddi og sendi þetta bréf áfram er velviljuð persóna. Vandinn er hinsvegar sá að viðkomandi hugsaði ekki dæmið til enda. Eins og t.d. hvenær þetta bréf hefði farið af stað upprunalega. Af listum yfir þá sem höfðu fengið bréfið sent hér á landi mátti ráða að því hafði þegar verið dreift til a.m.k. 80 íslenskra fyrirtækja sem hafa síðan væntanlega áframsent það á 800 önnur fyrirtæki sem hafa áframsent á 8000 fyrirtæki miðað við að einungis bréfið hafi einungis farið þrjár umferðir á þeim tæpa mánuði síðan það var þýtt af Rauða krossinum. Það þarf engan hagfræðing til að sjá að samanlagt hefur farið mikill tími í að dreifa þessu bréfi.

En hvað skyldi koma í ljós ef grennslast væri fyrir um Steve Detry? Við hjá Snerpu prófuðum að gera það og eftir nokkra leit á Netinu fundust fáeinar heimildir um bréfið og við fengum líka svar frá einum af kunningjum fjölskyldunnar. Það var fyrst samið í janúar árið 1998. Bréfið er semsagt búið að vera í gangi í þrjú og hálft ár! Nú vaknar spurningin ... Er verið að gera foreldrum þessa barns greiða? - hugsanlega er það dáið og minningarnar um það hellast daglega inn um bréfalúguna hundruðum saman? - Eða hvað?

Sem betur fer er Steve Detry ekki dáinn. Hann er meira að segja við ágætis heilsu og er batnað af þeim sjúkdómi sem hann þjáðist á sínum tíma af. Það eina sem þjakar hann er það ólán að velviljaður nágranni fjölskyldunnar sendi af stað ofangreint keðjubréf. Því að enn þann dag í dag opnar hann nokkur hundruð umslög á dag ef það skyldi vera eitthvað annað en nafnspjald í bréfinu. Við höfðum upp á kunningja fjölskyldunnar (við gerðum okkur aldrei von um að ná bréfasambandi við Steve sjálfan) og fengum frá honum tölvupóst þar sem hann sagði það valda miklum vanda fyrir Steve að fá öll þessi nafnspjöld. Hann bað okkur þess lengstra orða að við gerðum það sem við gætum til að stöðva keðjubréfið. Hann bað okkur um að koma þessu á framfæri sem víðast en athugið hann bað ekki um að það yrði gert með því að áframsenda til allra alla sólarsöguna í þessum pósti. Það væri þá annað keðjubréf. Ef þú þekkir einhvern sem þú telur að þurfi að vita af afleiðingum keðjubréfa, EKKI senda viðkomandi þennan texta í tölvupósti. Láttu nægja að senda vefslóðina og viðkomandi getur þá farið á þessa vefsíðu og lesið það hér. Af hverju? - Veltu því aðeins fyrir þér...